Sunday, January 27, 2008

Bloggun í forgangi

Jæja, vegna fjölda áskorana neyðist ég til þess að blogga!

Það er er orðinn all langur tími síðan ég bloggaði, og á þeim tíma ferðaðist ég heim til íslands yfir
jólin og hafði mjög gott 3 vikna frí með fjölskyldu og vinum :). Veðrið var viðbjóður eins og flestir
muna eftir en lét maður það ekki stoppa sig oft á tíðum þó við fórum nú ekki í bæinn á gamlárskvöld.

Svo varð ég 22 ára þann 1. Janúar og hélt ég upp á afmælið mitt heima hjá Markúsi í fínu partýi með mínum helstu vinum og verður drykkurinn MOSCOW MULE í hávegum hafður hér eftir!

Moscow Mule (Uppskrift)

Vodki 25-30%
Ginger Ale 65%
Pressaður Lime safi 5-10%

Ég verð aldrei samur eftir að Helgi kynnti mér fyrir þessum brjálaða drykk og hef ég þegar hafið undirbúning á næsta partýstandi hjá mér að blanda mér þetta!


Persónulega fannst mér þetta frí vera helst til langt, því það dregur úr manni svolítið hafa snúið sólarhringnum við og vera í fáránlegri afslöppun í of langann tíma.

Svo þegar ég kom heim voru byrjaðar framkvæmdir á klósettunum í allri blokkinni og hafa verið töluverð læti síðan þá. Þeir fóru líka í eldhúsið og lömdu þeir næstum í gegnum vegginn þar sem ég var sofandi, það kom gat á málningarpappírinn og allt!. Svo hafa þeir komið fyrir þurrklósetti inni á ganginum sem er vægast sagt nokkuð ógeðslegt en er allavega betra en að labba niður í garð og fara á klósettið þar! Við ákváðum þó að einungis pissa í þurrklósettið hehe.

En nú er Isabel búin að vera í prófum og stóð sig bara nokkuð vel og náði munnlega prófinu en á eftir að fá úr skriflega. Hún fékk líka nýja vinnu við líffræðina að telja og greina frjókorn sem eru í loftinu. Núna er hún í viku skíðafríi í frakklandi og kemur heim aftur á sunnudaginn. Á meðan er ég einn heima og er að fara að vinna á megaviku hjá Dominos.

Ég held að það sé komið nóg í bili og ég lofa að ég skrifa meira :)

Með kveðju frá danmörku

Tuesday, December 11, 2007

7 dagar í ísland

Já, mig er farið að hlakka töluvert til að koma heim þrátt fyrir að isabel sé ekki mjög sátt við það, en það verður bara að hafa það :). Nú á ég einungis 3 daga eftir í skólanum og þónokkrar langar vaktir á Dominos áður en ég fer heim og er það allt gott og gilt!

Þetta hefur verið mjög góð helgi hjá okkur Isabel, við fórum saman í Tívólí og í leikhús í Glersalnum í Tívólí á Laugardeginum, að horfa á einhverja stórskemmtilega sýningu sem heitir Crazy Christmas Cabaret. Eftir það fór ég að vinna og kom ekki heim fyrr en klukkan 2:30. Á Sunnudeginum komu Gulli og Bryndís í heimsókn með nóa konfekt, lök og graflax frá mömmu og pabba. Þau stoppuðu frekar stutt en við náðum að spjalla heilmikið og var það bara nokkuð notalegt. Svo seinna fór ég heim til Mömmu hennar Isabel í Vallensbæk í alvöru danskann jólamat þar sem ég ver ðekki hér um jólin. Það var elduð Önd og ég kom með graflaxinn sem var borðaður í forrétt! Eftir matinn var bakað það sem heitir Æbleskiver, sem eru einhverskonar kúlur sem minna mig mikið á kleinur, og kakó á meðan horft var á myndina Family Man.

Það er búið að vera örlítið vesen með veðrið hér í Köben, en ekkert í samanburði við það sem ég heyri um sem gengur á á Íslandi!, Það er bara búið að rigna mikið og ekkert sérlega gaman að rölta í svona mikilli rigningu.

Ég ákvað að halda smá partý fyrir dönsku vini mína á Laugardaginn til að halda uppá Jól og Afmælið mitt og er byrjað að skipuleggja það, hugsanlega með kvöldmat fyrir nokkra útvalda og svo taka á móti restinni af liðinu.

Jæja, ég held það sé komið nóg í bili!

Ég ætla að halda áfram að borða konfektið!

með kveðju frá danmörku

Þórður

Wednesday, December 5, 2007

Loksins byrja ég að blogga örlítið

Jæja, ég fann loksins þörfina á að byrja á smá bloggi fyrir ykkur fólkið heima svo þið getið örlítið fylgst með hvað gerist hérna á Nørrebro í Kaupmannahöfn.

Það gengur alveg ágætlega í København MGK í saxófón náminu þrátt fyrir að byrjunin hafi verið örlítið erfið sökum veikinda og smá örðugleika vegna þeirra líka.

En mig er farið að hlakka rosalega mikið til að koma heim 18. Des og hitta allt fólkið heima og að sjálfsögðu reykjavík líka. Ég hef verið að hugsa mikið heim undanfarið og sérstaklega til Ólafar litlu systur þar sem ég áttaði mig á því að ég verð líklega mjög lengi hérna í Kaupmannahöfn og ég mun missa af líklega þeim mikilvægasta tíma í hennar lífi.. þegar hún fer í menntaskóla og svo framvegis.. og eins og bræður mínir hjálpuðu mér mikið á þeim tíma þá verð ég ekki til staðar fyrir hana. Það er svolítið skrýtin tilfinning en ég get víst ekki gert mikið í því hvort eð er. Ég verð bara að nýta þann tíma sem ég verð heima eins mikið og hægt er þrátt fyrir að sérstaklega ólöf er líklega ein sú mest upptekna manneskjan í fjölskyldunni!

Lífið hérna í Kaupmannahöfn er mjög fínt og ég og isabel erum mjög ánægð með íbúðina okkar (fyrir utan það að í janúar verður baðherbergin í allri blokkinni gerð upp í litlar 7 vikur) og lifum bara mjög rólegu lífi hérna. Við erum búin að vera örlítið löt undanfarið og ekki hefur mikið verið uppá eldamennskuna hjá hvorugu okkar þar sem við skiptumst á að vera að vinna á kvöldin. Síðastliðin 4 kvöld hef ég komið heim með pizzu frá Dominos þar sem ég vinn þessa stundina. Mér finnst það nokkuð erfitt að vera að vinna svona og vera í skólanum á sama tíma og alltaf finnst mér að mér gefst ekki nægur tími til þess að æfa og læra þar sem ég byrja oftast snemma í vinnunni og er búinn seint þökk sé þessum frábæra starfskrafts sem vinnur með mér. Ég sá strax að Dominos er í sömu örðugleikum og heima þegar ég var að vinna, að sumt fólkið þarna er varla upp á marga fiska og hringir sig in veikt trekk í trekk sem skilur okkur hin eftir í bölvuðu veseni og lengri vöktum!

Eins og margir vita þá er Nørrebro eitt af stærstu innflytjendahverfunum í Kaupmannahöfn og finnst mér nokkuð spes að horfa út um gluggan oft á tíðum að sjá næstum 80% af fólkinu sem gengur úti og býr hér í grenndinni eru meira og minna frá Arabalöndum. Það hefur komið fyrir að það standa hópar af ungum mönnum hérna úti á götu og eru að ógna fólki og til dæmis í dag þá sá ég 2 arabíska drengi vera að láta höggin dynja á öðrum svörtum dreng þegar þeir voru á leið heim frá skólanum. Þetta finnst mér í sjálfu sér alveg magnað að þetta fólk (og ég) hefur þann hlut sameiginlegann að vera innflytjendur og sé ég mikið af því að rétt eins og heima þá hópa þau sig mjög mikið saman og gefa skít í alla aðra. En nóg um það.

Rétt eins og ég nefndi áðan þá hef ég verið að hugsa mikið heim og býst ég við því að aðal ástæðan fyrir því sé að ég upplifi mig ekki með alveg eins marga vini og ég á heima. Þetta að sjálfsögðu kemur allt saman með tímanum mér hefur fundist það óþægilegt að vera að troða mér inn á milli í vinahópa vina minna frá lýðháskólanum og fyrir vikið líður mér örlítið illa. Ég er þó þegar byrjaður að mynda mikinn vinskap milli strákanna í skólanum og til dæmis þá kom Andreas (eini karlsöngvarinn í öllum MGK skólunum í köben) í heimsókn til mín og Isabel í gær og elduðum við mat og keyptum bjór og höfðum það mjög gott. Líka mér til mikillar undrunar þá tók Isabel þátt í öllu kvöldinu með okkur og spjallaði helling við Andreas um allt mögulegt, sem er hlutur sem ég hef ekki séð hana gera áður með mínum vinum eins og þið sem þekkið isabel örugglega vitið. Hún er farin að opna sig og njóta þess meira að vera hérna saman með mér hérna þrátt fyrir það að ég sé ekki beint sá auðveldasti til að búa með! enda kominn beint frá hótel mömmu til annars lands með manneskju sem er oft á tíðum óhugnalega lík móður minni haha.

Ég hugsa að þetta sé nóg í fyrsta póstinn hérna á þessarri nýju bloggsíðu minni. Ef þið hafið spurningar um lífið, tilveruna eða mig hérna þá endilega skrifið comment og ég skal svara því svo fljótt og hægt er !

Takk fyrir mig

Kveðja frá Danmörku
Þórður